fbpx

Hvað þarf sjón manns að vera slæm til að maður verði löglega blindur?

Þeir sem teljast blindir samkvæmt lögum hafa talsvert mismikla sjón. Sjónskerðing er skilgreind út frá sjónskerpu annars vegar og sjónvídd hins vegar.

Hvað þarf sjón manns að vera slæm til að maður verði löglega blindur?

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir að algengustu sjónvandamál fólks, eins og nærsýni, fjarsýni og sjónskekkja, flokkast ekki sem sjónskerðing enda leiðrétta gleraugu yfirleitt slíkan vanda.
Þeir sem teljast blindir samkvæmt lögum hafa talsvert mismikla sjón. Sjónskerðing er skilgreind út frá sjónskerpu annars vegar og sjónvídd hins vegar. Sjónskerpan er mikilvægur hluti sjónarinnar og gagnleg til dæmis við lestur og aðra nákvæmnisvinnu. Skerpan er oftast metin með því að mæla hversu smáa stafi fólk getur lesið í ákveðinni fjarlægð af þar til gerðum sjónprófunartöflum. Hliðarsjónin er líka mikilvæg en hún gerir okkur kleift að skynja hreyfingar útundan okkur. Hún er mæld með sjónsviðsmælum og táknuð með gráðum sem menn sjá út frá miðju.

Samkvæmt skilgreiningu Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) eru lögblindir einstaklingar þeir sem hafa 10% eða minni sjón eða sjónsvið þrengra en 10 gráður.

Augnlæknar skipta gjarnan þeim sem eru sjónskertir eða lögblindir niður í fimm flokka þar sem þeir sem eru lögblindir skiptast í þrjá af þessum flokkum; þeir sem hafa einhverja sjón, þeir sem hafa einhverja birtuskynjun og þeir sem hafa enga birtuskynjun.

Í lögum um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga (nr. 160/2008) er að finna eftirfarandi skilgreiningar á blindu og sjónskerðingu:

Sjónskertur: Einstaklingur telst sjónskertur ef læknisfræðileg greining sýnir að sjón hans er minni en 30% á betra auga, með venjulegum sjónglerjum, og innan við 20 gráðu sjónsvið, eða ef starfrænt mat sýnir erfiðleika vegna sjónskerðingar með lestur 10 punkta leturs með venjulegum sjónglerjum.

Blindur: Einstaklingur telst blindur ef læknisfræðileg greining sýnir að sjón hans er minni en 5%, með venjulegum sjónglerjum, og innan við 10 gráðu sjónsvið.

Niðurstöður sjónmælinga þar sem skoðað er hversu smáa stafi fólk getur lesið eru gefnar upp sem hlutfall (almennt brot) þar sem fyrir ofan strik kemur mælingarfjarlægðin en fyrir neðan strik sú fjarlægð sem eðlilega sjáandi einstaklingar greina viðkomandi stafi í. Mörkin fyrir sjónskerðingu eru 6/18 (33% sjón) en sambærileg mörk fyrir lögblindu eru 6/60, sem er 10% sjón. Mælingar miðast alltaf við að notuð séu bestu fáanleg gleraugu. Þetta þýðir að einstaklingur sem mælist með 6/60 sér í 6 metra fjarlægð það sem sá sem hefur fulla sjón sér í 60 metra fjarlægð.

Okkar hugsjón

Eyesland gleraugnaverslun leggur metnað sinn í að bjóða vandaðar vörur á góðu verði. Heimsþekkt vörumerki og fjölbreytt úrval. Í boði eru allskonar gleraugu, lesgleraugu sem og margskipt gleraugu, linsur, sólgleraugu, hjólagleraugu, hlaupagleraugu, skíðagleraugu, fjallagleraugu, veiðigleraugu með eða án styrks.

Fara í tækjastiku